news

Septemberfréttir

04. 10. 2021

Haustið er búið að vera frekar blautt hjá okkur en við látum það nú ekki á okkur fá og syngjum bara eins og Helgi Björns " mér finnst rigningin góð" :)

Enda getum við ekkert stjórnað veðrinu en við getum stýrt okkar viðhorfi til þess ;)

Börnunum finnst sem betur fer mjög gaman að leika úti í vatnssulli og allir eru með góða pollagalla þannig að þá er þetta ekkert mál.


Við höfum líka verið dugleg að fara í vettvangsferðir í nágrenni leikskólans.

Í göngutúr um daginn var aðalsportið að fá flutningabílana til að flauta á Borgarbrautinni ;)

Skólahópur hefur farið í göngutúra í hádeginu á miðvikudögum, en næsta miðvikudag fara þau í fyrsta skipti í íþróttahúsið.

Lubbastundir eru á öllum deildum, mismunandi verkefni eftir aldri barna.

Áhersla er á málörvun og málhljóðin, veljum góðar bækur til lestrar og ýmis verkefnavinna í gegnum leik.

Börnin í árgangi 2017 koma saman í Lubbastund í sal á miðvikudögum.

Lubbaleikur: Eitt barn fer fram með Lubba og við felum málbein vikunnar undir mottu sem börnin sitja á. Lubbi kemur svo inn og fer á milli barnanna að leita af beininu. Ef börnin eru ekki með beinið klappa þau honum annars gefa þau honum beinið og svo skiptast þau á að fara fram með Lubba.

Syngjum þegar við erum búin að fela " Lubbi minn, Lubbi minn komdu að finna beinið þitt"

Vinnustundir byrjuðu aftur hjá okkur í september.

En þar er unnið í fámennum hópum að ýmsum verkefnum eftir námsviðum leikskóla.

Valið sem heldur utanum frjálsa leikinn okkar er svo alltaf á sínum stað bæði fyrir og eftir hádegi.

Þá velja börnin sér viðfangsefni til að una við með vinum sínum og æfa sig í samskiptum, þau læra svo auðvitað ýmislegt í gegnum leikinn.

September var eins og þið sjáið hinn fínasti mánuður hjá okkur :)

© 2016 - 2021 Karellen