Karellen
news

Febrúarfréttir

25. 03. 2022

Febrúar var fljótur að líða með allskonar veðri og veðurviðvörunum.

Snjórinn hefur glatt börnin og ýmislegt verið brasað í útiverunni og oft höfum við haft duglega hjálparleiðtoga til að aðstoða við að moka snjó frá innganginum.

Á Sjónarhóli hefur verið mikill áhugi á ýmsum tilraunum t.d. að athuga hvað flýtur og hvað sekkur, búa til eldgos með edik og matarsóda og fleira þess háttar skemmtilegt.

Þau tóku líka þátt í að búa til sinn eigin leir.

Þau hafa einnig æft sig í stærðfræði í gegnum ýmis verkefni.

Kubbar, segulkubbar og fleiri tegundir eru sívinsælt leikefni hjá okkur.

Blær átti afmæli í byrjun mánaðarins. Haldið var upp á það með afmælissöng og börnin fengu saltstangir og útbjuggu afmæliskórónur á sína Blæbangsa.

Við leggjum mikið upp úr lestri bóka og einnig að bækur séu aðgengilegar fyrir börnin, svo þau geti skoðað í rólegheitum og rifjað upp sögur sem lesnar hafa verið fyrir þau, skoðað og "lesið" sjálf sér til skemmtunar.

Teppahús vekja alltaf mikla lukku og skapa góðan leik. Það þarf ekki dýr og flókin leiktæki til að hafa gaman, einfaldleikinn er oftast bestur og gefur hugmyndafluginu meira pláss.

Í vinnustundum fara börnin í tónlistartíma þar sem þau kynnast ýmsum hljóðfærum, fara í leiki og syngja og fleira þess háttar. Það getur verið gaman að fá að prófa að syngja, að segja brandara eða annað í míkrafón. Það er líka mjög góð æfing í að koma fram fyrir hópinn.

Við leggjum alltaf inn nýtt málhljóð með Lubba í hverri viku. Þar er lögð áhersla á hvað stafirnir segja og ýmis skemmtileg verkefni unnin í kringum það. Í þessum mánuði lærðum við t.d. O og unnum töluvert með hringformið í tengslum við það, bjuggum til dæmis til orma úr seríoshringjum.

Við tökum svo á móti mars með gleði í hjarta og von um að veðrið fari að batna.

© 2016 - 2024 Karellen