Karellen

Leikskólalæsi hefur verið grundvallarþáttur í leikskólastarfinu frá hausti 2011.

Á leikskólaárunum þróast málþroskinn hratt og mikilvægur grunnur er lagður að alhliða þroska barna á þessum árum. Góður málþroski á leikskólaaldri eykur líkur á farsælu lestrarnámi. Leikskólalæsi vísar til þróunar á mikilvægum undirstöðuþáttum lestrarfærni áður en formleg lestrarkennsla hefst. Meðal þessara þátta eru orðaforði, bókstafaþekking, hljóðkerfisvitund, málskilningur/hlustunarskilningur og máltjáning. Helstu áhrifavaldar eru forvitni barns, samskipti og reynsla þess af ritmáli. Á þennan hátt byggja börn upp lestrarnámið sitt allt frá fæðingu. Viðhorf barns til læsis er einnig mikilvægt þar sem grunnur er lagður að lestrarfærni á heimilum og í leikskóla.

Lestrarhvetjandi umhverfi og aðferðir hafa verið í Klettaborg mörg undanfarin ár. Hér er lagður góður grunnur að lestrarfærni og þróunar leikskólalæsis. Áhersla er á að efla grunnþætti þess þ.e. orðaforða, bókstafaþekkingu, hljóðkerfisvitund, málskilning/hlustunarskilning og máltjáningu í gegnum leik og skipulagt starf. Lögð er áhersla á fjölbreytta vinnu og að börnin hafi góðan aðgang að læsis- og ritmálsörvandi efnivið. Barnabækur skipa stóran sess í leikskólastarfinu og lesið er á hverjum degi og aðgengi að bókum gott. Unnið er með spil sem reyna á málið, ritföng og lestrarhvetjandi efniviður eru í boði, söngvar sungnir í söngstundum og unnið er markvisst með Lubba. Lubbi er íslenskur fjárhundur sem langar að læra að tala og þarf að læra öll íslensku málhljóðin. Börnin hjálpa Lubba að læra málhljóðin með söng og ýmsum æfingum. Hvert málhljóð hefur ákveðið tákn sem hjálpar börnum að muna heiti þess. Unnið er einnig með stuttar sögur sem tengjast hverju málhljóði sem finna má hljóðið fremst í orði, inni í orði eða aftast í orði. Sögurnar geyma fjölbreyttan orðaforða sem hvetja til auðugs málfars.

Gunnur Björk Rögnvaldsdóttir aðstoðarleikskólastjóri hefur yfirumsjón með leikskólalæsinu en áhersla er lögð á samvinnu allra kennara leikskólans.

Borgarbyggð hefur gefið út lestrarstefnu fyrir leik- og grunnskóla Borgarbyggðar, hana má nálgast hér: lestrarstefna tilbuin.pdf

Related image

© 2016 - 2024 Karellen