VERKLAGSREGLUR FYRIR LEIKSKÓLA BORGARBYGGÐAR

1. UMSÓKN OG INNRITUN

 • Sótt er um leikskóladvöl á vef Borgarbyggðar.
 • Sækja má um leikskóla frá fæðingardegi barns eða strax og kennitala þess hefur verið skráð. Ef skráðir eru tveir leikskólar á umsókn koma báðir til greina við úthlutun.
 • Aldur barns ræður því, að öllu jöfnu, hvenær barn fær úthlutað leikskóladvöl.
 • Leikskólastjóri tilkynnir foreldrum hvenær barnið getur hafið leikskólagöngu, að jafnaði eigi síðar en fjórum vikum áður en leikskóladvöl hefst.

2. SKILYRÐI FYRIR LEIKSKÓLADVÖL

 • Skilyrði fyrir leikskóladvöl barns er að lögheimili (skv. Þjóðskrá) sé í Borgarbyggð en barnið getur verið á biðlista þótt lögheimili sé annars staðar.
 • Hægt er að sækja um leikskóladvöl vegna tímabundinna dvala barna með lögheimili í öðrum sveitarfélögum og er þá farið eftir viðmiðunarreglum Borgarbyggðar vegna skóladvalar barna utan lögheimilissveitarfélags.
 • Fjölskyldur íslenskra ríkisborgara með erlent lögheimili, sem dvelja tímabundið í Borgarbyggð við nám eða störf, geta sótt um tímabundna leikskóladvöl í leikskólum Borgarbyggðar, (þó að hámarki í 3 mánuði á ári hverju). Í þeim tilfellum er úthlutun leikskóladvalar háð því að aðstæður í leikskólum séu með þeim hætti að unnt sé að taka við börnum tímabundið.

3. LEIKSKÓLAGJÖLD

 • Leikskólagjöld eru innheimt fyrirfram. Gjalddagi er 1. hvers mánaðar og eindagi 30 dögum síðar.
 • Leikskólagjöld eru ekki innheimt í júlí.
 • Gjaldskrá leikskóla er endurskoðuð árlega og tekur sveitarstjórn ákvörðun um breytingar á henni. Breytingar á gjaldskrá skulu kynntar foreldrum.
 • Einstæðir foreldrar greiða lægra gjald eins og fram kemur í gjaldskrá og þarf viðkomandi að vera skráður einstæður í Þjóðskrá. Hefji einstæðir foreldrar sambúð skal greiða hærra gjald þegar sambúð hefst. Slíti foreldrar sambúð skal leggja fram vottorð frá sýslumanni og lækkar þá gjald frá næstu mánaðamótum eftir að vottorð berst.
 • Námsmenn greiða lægra gjald ef báðir foreldrar eru í fullu námi (30 ECT einingar á önn eða 18 framhaldsskólaeiningar). Sækja skal um námsmannaafslátt til leikskólastjóra. Skila þarf innritunarvottorði frá skóla í upphafi hverrar annar.
 • Foreldrum/forráðamönnum ber að tilkynna leikskólastjóra um breytingu á högum sínum, s.s. breytt heimilisfang, símanúmer, netfang og hjúskaparstöðu.

4. DVALARTÍMI

 • Opnunartími leikskóla Borgarbyggðar er samkvæmt samþykktum sveitarstjórnar hverju sinni. Upplýsingar um opnunartíma má finna á vef leikskóla og sveitarfélagsins.
 • Áður en leikskóladvöl barns hefst gera viðkomandi leikskóli og foreldrar með sér dvalarsamning. Með undirritun sinni staðfesta foreldrar að þeir hafi kynnt sér gjaldskrá Borgarbyggðar og verklagsreglur fyrir leikskóla og skuldbinda sig til að hlíta þeim eins og þær eru á hverjum tíma.
 • Ef lögheimili barns er meira en 15 km frá leikskóla er heimilt að skrá barnið í 3-4 daga leikskóladvöl í viku og greiða samkvæmt því.
 • Ef foreldrar óska eftir flutningi milli leikskóla ber að sækja um það til leikskólastjóra þess leikskóla sem barnið dvelur í og fer þá barnið á biðlista í hinum leikskólanum. Gilda þá sömu reglur um innritun.
 • Hægt er að sækja um breytingar á dvalartíma, hjá leikskólastjóra fyrir 20. hvers mánaðar. Breytingar miðast við mánaðamót.
 • Barn í leikskóla skal taka að lágmarki fjögurra vikna samfellt sumarleyfi ár hvert. Ef barn er fjarverandi vegna orlofs í samfellt tvær vikur eða lengur umfram sumarleyfi og foreldrar láta vita með hálfs mánaðar fyrirvara skal endurgreiða fæðiskostnað fyrir þann tíma sem barnið er í orlofi.
 • Geti barn ekki sótt leikskóla vegna langvarandi veikinda sem vara í amk. fjórar vikur samfellt geta foreldrar sótt um afslátt af leikskólagjöldum. Sótt skal um til leikskólastjóra.
 • Borgarbyggð niðurgreiðir aðeins vistun barns í einum leikskóla í senn.

5. UPPSÖGN

 • Gagnkvæmur uppsagnarfrestur á dvalarsamningi er einn mánuður hið minnsta og miðast við 1. eða 15. hvers mánaðar. Uppsögn dvalarsamnings skal vera skrifleg og skilast til leikskólastjóra.
 • Ef um 3ja mánaða skuld vegna leikskólagjalda er að ræða skoðast það sem uppsögn á leikskóladvöl.

6. ANNAÐ

 • Starfsfólk leikskóla Borgarbyggðar er bundið þagnarskyldu. Þagnarskyldan helst þó látið sé af störfum.
 • Hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi. Samkvæmt barnaverndarlögum er öllum skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Tilkynningaskyldan gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu starfsstétta.
 • Leikskólar Borgarbyggðar hafa fimm skipulags- og/eða námskeiðsdaga á hverju skólaári, sem samþykktir eru af fræðslunefnd og skráðir á skóladagatal.
 • Samkvæmt lögum um leikskóla nr 90/2008 eiga börn sem þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun rétt á slíkri þjónustu innan leikskólans. Skólaþjónusta Borgarbyggðar veitir ráðgjöf og fræðslu vegna barna ef foreldrar og/eða starfsfólk leikskóla telja þess þurfa til að geta veitt börnunum sem besta menntun, uppeldi og umönnun og umhverfi við hæfi. Stuðlað er að jafnrétti til náms og vellíðan allra barna.
 • Nánari upplýsingar er varða leikskólamál veitir fræðslustjóri í Ráðhúsi Borgarbyggðar.

Reglur þessar voru fyrst samþykktar í fræðslunefnd 20.11.2006

Þær voru endurskoðaðar 1.2.2012.

Endurskoðaðar og samþykktar í fræðslunefnd 10. maí 2016.


© 2016 - 2022 Karellen